Skoðun

Hverjir vilja hjálpa mér að hjálpa öðrum?

Ásdís Sigurðardóttir skrifar

Tilefni skrifa minna hér, eru þau að í júlí mánuði fór ég og heimsótti vinkonu mína í Reykjavík. þar sem hún er að vinna sjálfboðavinnu hjá Hjálpræðishernum . Skrif hennar á blogginu höfði vakið athygli mína og var ég forvitin um það starf sem þarna fer fram og langaði til að leggja þeim lið ef ég gæti.

Skemmst er frá því að segja að ég varð yfir mig undrandi á því sem ég sá og fræddist um, en jafnframt mjög döpur. Í húsnæði sem Herinn hefur til umráða út á Eyjaslóð er aðstaða fyrir útigangsfólk. Vinkona mín hafði af gamni sínu auglýst eftir nýjum sokkum og nærbuxum bæði fyrir konur og menn og tók ég með mér fullan poka af slíku sem ég fékk fyrir litinn pening í Europris og vægt til orða tekið, þá gerði það lukku, getið þið sett ykkur í þau spor að þurfa að fara í notuð nærföt af öðrum? nei ég held ekki. Ég komst að því í þessari heimsókn minni, að það starf sem þarna fer fram er stórkostlegt. Nær allir sem að því koma eru sjálfboðaliðar.

Á jarðhæðinni er nytjamarkaður og hagnaðurinn af þeirr sölu rennur til starfsins sem fer fram á efri hæðinni. Ferlið er þannig hjá útigangsfólkinu, að það safnast saman niður á Her í miðborginni og er keyrt þaðan í 7 manna bíl út á Granda og þarf að fara 1-3 ferðir, keyrt er kunnar slóðir og þeir sem ekki hafa getað komið sér sjáfir niður á her og liggja jafnvel á götunni, eru bornir uppí bílinn.

Á Eyjaslóð er tekið á móti þeim með heitum staðgóðum mat, fólkið kemst í bað og fær hrein föt, einnig getur fólkið sofið og hvílt sig í uppbúnum rúmum og eins privat og hægt er. kl.17.00 er staðnum svo lokað og hvert fer fólkið? það er keyrt aftur í bæinn og fer auðvitað beint á götuna, en betur í stakk búið en áður, með nesti í poka og svo þarf að þreyja þorrann fram á næsta og þá getur það komið aftur og svo áfram ef það vill, það eru að jafnaði 20 manns þarna á hverjum degi, bæði konur og menn á öllum aldri.

Sumir eiga þarna lítið pottablóm sem þeir hugsa um og tala við, þeirra fyrsta verk er oftast að tala við blómið sitt, einu veruna í lífinu sem þau eiga sjálf. Einnig eiga sumir plastpoka sem geymdir eru fyrir þau, svona Bónus poka ekki stóra en þar eiga þeir sínar jarðnesku eigur. Stundum eru skjólstæðingar svo illa á sig komnir þegar komið er með þá í Eyjaslóð að það þarf að bera þá upp og hjálpa þeim til að baða sig og svo leyfa þeim að sofa, fólk er kannski búið að pissa á sig ofl.

Það ætti enginn að þurfa að deyja í okkar landi skítugur og svangur og þeirrar trúar að öllum sé sama um hann. Ástvinir eru oft algjörlega bugaðir og ráðalausir og geta hreinlega ekki meira og fíkillinn vill heldur ekki leggja meira á sitt fólk, en þá og einmitt þá tekur þetta yndislega fólk hjá hernum við þeim. Þessi starfsemi Hjálpræðishersins er styrkt af Hernum í Noregi svo hægt sé að vinna þetta góða starf hér á landi.

Aðeins einn af öllu þessu fólki er á launum, 3-5 starfsmenn eru þarna hvern dag. Það er ekki laust við að ég sem Íslendingur skammist mín fyrir hönd þjóðar minnar að standa svona illa að málum útigangsfólks, að við þurfum aðstoð frá Noregi til að geta unnið þetta góða starf.

Reykjavíkurborg var beðin um styrk í fyrravetur, en því var hafnað án útskýringa. Skemmst er að minnast þessa að þegar Björk og Sigurrós "BUÐU" landsmönnum til tónleika í Laugardal og báðu þá um styrk frá borginni til að geta haldið þessa tónleika að upphæð 4.000.000.- það var afgreitt vandræðalaust.

Mannslíf eru einskis metin á móts við þúfur og steina og fossa. Rétt er geta þess að á Akureyri er herinn með samskonar starfsemi. Ég vil líka taka fram að þær gjafir sem koma til hersins, t.d. fatnaður og annað sem þeir geta séð af, senda þeir í Rauða Krossinn og fer það síðan áfram til þróunarlanda þar sem þörfin er mikil.

Full nýting er því á öllu sem þarna safnast. Frá því ég kom í heimsókn í júlí, hefur athvarfið eignast styrktaraðila, það er Myllan, sem nú sér þeim fyrir öllu brauðmeti, frábært framtak og er það einmitt von mín að fleiri aðilar komi inn í starfið og styrki á þann hátt sem hver og einn getur. Til fróðleiks vil ég geta þess að frá 1.jan. til 15.júní eru komur í athvarfið 1633.

Hér get ég einfaldlega ekki látið staðar numið. Ég vil gera eitthvað fyrir það fólk sem býr á götunni í Reykjavík. Við erum ein þjóð í litlu landi hvort sem við búum á stór Reykjavíkur svæðinu eða á landsbyggðinni. Ég hef fengið þá hugmynd að safna hlutum sem fólk vill gefa og koma því á nytjamarkaðinn í Eyjaslóð svo meira sé hægt að selja og auka þannig tekjur Hersins, einnig vil ég safna fötum og öðru sem kæmi fólkinu vel, nú er vetur framundan og ég er viss um að það leynist einhversstaðar aukaúlpa inn í skáp, sem mundi koma sér vel fyrir þá sem hýrast þurfa úti í alls kyns veðrum.

Ég er tilbúin að taka við hverju því sem fólk telur sér fært að gefa og koma því í réttar hendur og sjá til þess að framlög allra nýtist sem allra, allra best. Nærföt og sokkar eru ekki hlutir sem maður gefur frá sjálfum sér, en ef einhverjir eru til í að eyða smá pening í slíkt, þá væri það afskaplega vel þegið, þið munið, margt smátt gerir eitt stórt.

Þeir sem vilja vera með mér í þessu verkefni geta haft samband við mig í síma: 482-4262 eða 865-8698 og ég get sótt, eða þið komið hlutum til mín.

Ég bý á Selfossi og mun safna hér í bæ og í nágrenni og þeir sem eru annarsstaðar á landinu geta látið mig vita ef þeir eru aflögufærir og ég mun þá finna leið til að koma hlutunum til skila.

Með von um góðar undirtektir þakka ég ykkur fyrir að lesa þetta og ég hlakka til að sjá viðbrögð ykkar. Það er gott að gleðja aðra þá líður okkur betur í sál og líkama.

Ásdís Sigurðardóttir

móðir, eiginkona og öryrki.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×