Innlent

Fyrrverandi borgarfulltrúi sjálfstæðismanna gagnrýnir Gísla harðlega

Andri Ólafsson skrifar

Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa harðlega fyrir að ætla að sinna borgarfulltrúastörfum frá Edinborg.

Gísli ætlar að nema borgarfræði í háskólanum við Edinborg næsta vetur en hyggst fljúga heim til Íslands tvisvar í mánuði til þess að sækja borgarstjórnarfundi.

Sveinn Andri segir að Gísli ætti að taka sér leyfi á meðan hann stundar námið svo hægt sé að kalla inn varamann sem gæti sinnt borgarfulltrúastarfinu af fullum krafti.

Hann segir að margir sjálfstæðismenn í borginni séu afar óánægðir með ákvörðun Gísla. "Menn eru orðlausir," segir Sveinn.

"Það eru 14 ár síðan ég var borgarfulltrúi og á þeim tíma var þetta nánast fullt starf. Eins og málin hafa þróast þá hefur borgarfulltrúa starfið sífellt orðið umfangsmeira."

"Menn verða að gera sér grein fyrir því að það er mun meira á bakvið þetta starf en tveir fundir í mánuði. Á hverjum fundi eru fjölmörg mál á dagskrá sem krefjast mikils undirbúnings. Það eru viðtöl, undirbúningsfundir, símtöl og fleira. Ef menn geta ekki sinnt þessu með góðu móti eiga menn að víkja og leyfa öðrum að spreyta sig," segir Sveinn Andri.

Hann segist treysta því að borgarstjórnaflokkur sjálfstæðismanns "vindi ofan þessari hugmynd".

"Auðvitað er það fagnaðarefni ef menn vilja ljúka námi. En menn verða að hugsa þetta í víðara samhengi. Gísli Marteinn var ekki kosinn í borgarstjórn til þess að sinna þessu starfi með hangandi hendi frá Edinborg. Auðvitað geta aðstæður manna breyst. Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér og allt það. En til þess eru borgarfulltúar einmitt með varamenn."

"Það sem stendur upp úr í þessu máli er að Gísli virðist ætlast til þess að borgarbúar borgi háskólanámið hans. Og það líst mér illa á," segir Sveinn Andri Sveinsson, fyrrverandi borgarfulltrúi sjálfstæðismanna.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×