Innlent

Ólafur Ragnar þarf ekki samþykki orðunefndar

Forsetahjónin óskuðu leikmönnum íslenska landsliðsins til hamingju með sigurinn á Pólverjum fyrir helgi. MYND/Vilhelm
Forsetahjónin óskuðu leikmönnum íslenska landsliðsins til hamingju með sigurinn á Pólverjum fyrir helgi. MYND/Vilhelm

Orðunefnd gerir tillögur til forseta Íslands um veitingu orðunnar og er hún veitt tvisvar á ári. Aftur á móti getur forsetinn ef honum þykir efna standa til veitt orðuna án þess að orðunefnd leggi það til.

Samkvæmt frétt Associated Press íhugar Ólafur Ragnar Grímsson að sæma íslenska handboltalandsliðið, sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í gær, fálkaorðunni þegar liðið kemur til landsins næstkomandi miðvikudag.

Að öllu jöfnu er fálkaorðan veitt eftir að sex manna orðunefnd hefur fjallað um málefni orðunnar. Öllum er frjálst að tilnefna einstaklinga sem þeir telja verðuga sem orðuþega. Nefndarmenn bera sjálfir heiðursmerki orðunnar. Tilnefningar verða að berast með skriflegum hætti og þar skal koma fram ástæður þess að heiðra eigi viðkomandi með fálkaorðu.

Orðustig fálkaorðunnar eru fimm. Fyrsta stig hennar er riddarakross og eru flestir orðuþegar sæmdir honum. Ákveði Ólafur að veita landsliðsmönnunum orðuna fá þeir riddarakrossinn. Annað stigið er stórriddarakross, síðan kemur stórriddarakross með stjörnu og loks stórkross. Æðsta stig hinnar íslensku fálkaorðu er keðja ásamt stórkrossstjörnu en hana hljóta einungis þjóðhöfðingjar.

- Ólafur Ragnar íhugar að sæma strákana fálkaorðunni

 




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×