Enski boltinn

Ronaldo: Ég var barnalegur

NordicPhotos/GettyImages

Cristiano Ronaldo hefur nú loksins gert tilraun til að hreinsa til í sínum málum hjá Manchester United eftir Real Madrid ævintýrið sem stóð yfir í allt sumar.

Ronaldo ítrekar að það hafi verið draumur sinn að spila með Real Madrid, en viðurkennir að tímasetningin hafi ekki verið góð. Hann hafi verið barnalegur þegar hann fór fram á að vera seldur frá Manchester United.

"Þegar við unnum Evrópubikarinn fannst mér að ég væri búinn að vinna allt sem hægt væri að vinna með United," sagði Ronaldo í samtali við Daily Telegraph.

"Mér fannst ég þurfa á nýrri áskorun að halda og það var freistandi að geta verið í aðeins klukkutíma fjarlægð frá fjölskyldu minni í Portúgal. Allir vita að það er minni munur á lífstílnum á Spáni og Portúgal en á Englandi og allir hjá United sýndu því skilning," sagði Ronaldo, sem er væntanlegur til leiks þann 27. september eftir meiðsil.

"Það sem ég sagði opinberlega var ef til vill nokkuð barnalegt og ég tek fulla ábyrgð á því. Ég sagði bara hvað ég var að hugsa. Mér fannst vera kominn tími á nýja áskorun. Ég hefði sennilega aldrei íhugað að fara frá United ef við hefðum ekki orðið Evrópumeistarar og ég vil ítreka að ég vildi aldrei neyða félagið til að selja mig. Ég er atvinnumaður og legg mig alltaf 100% fram með félaginu. Ef ég fer frá United einn daginn, vil ég vita að ég hafi alltaf gert það sem ég gat til að hjálpa félaginu í einu og öllu," sagði Ronaldo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×