Innlent

Gunnar Nelson rotaði andstæðing sinn í Kaupmannahöfn

Íslenski bardagaíþróttamaðurinn Gunnar Nelson gerði sér lítið fyrir og rotaði andstæðing sinn, hinn reynda brasilíska bardagakappa Iran Mascarenhas, í lok annarrar lotu á Adrenalínmótinu í blönduðum bardagaíþróttum í Kaupmannhöfn í gærkvöldi.

Iran sem er þrítugur að aldri, og hefur verið þjálfari hjá einum stærsta bardagaíþróttaklúbbi Danmerkur um nokkurra ára skeið, var talinn mun sigurstranglegri af dönskum fjölmiðlum auk þess að vera á heimavelli.

Íslendingurinn ungi vann dönsku íþróttahöllina á sitt band með frábærri frammistöðu og fjöldi Dana tóku undir með rúmlega 20-30 Íslendingum sem voru komnir til að styðja Gunnar og hvöttu hann óspart með því að hrópa nafn hans og Íslands til skiptist.

Íslendingarnir sem voru í bolum sérmerktum Gunnari settu mikinn svip á keppnina og þegar Gunnar rotaði andstæðing sinn ætlaði allt um koll að keyra í höllinni.

Fyrri lota bardagans var mjög jöfn en það hefur væntanlega hrætt brasilíska reynsluboltann, þar sem hann sat og kastaði mæðinni eftir lotuna, að sjá að Íslendingurinn ungi settist ekki einu niður milli lota heldur stóð keikur í horninu og beið eftir því að fá að fara aftur inn í bardagann.

Í annarri lotu hafði Gunnar algjöra yfirburði og lét hverja fléttuna á fætur annarri dynja á andstæðingi sínum. Í lok lotunnar hrakti hann síðan Brasilíumanninn út í horn og rotaði hann með glæsilegri boxfléttu.

Með sigrinum ávann Gunnar sér rétt til að berjast um Adrenalínbeltið í veltivigt við núverandi meistara, Norðmanninn Simeon Thoresen. Þetta var sjötti atvinnumannabardagi Gunnars sem er ósigraður á ferlinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×