Viðskipti erlent

Sony innkallar 500.000 fartölvur um allan heim

Sony hefur innkallað tæplega 500.000 Vaio fartölvur um allan heim. Þetta kemur í kjölfar fjölda kvartana um að eldur hafi óvænt komið upp í fartölvunum og skaðað eigendur þeirra.

Innköllunin þykir meiriháttar áfall fyrir Sony og féllu hlutir í tölvurisanum um yfir 4% á mörkuðum er málið varð opinbert í vikulokin. Hafa hlutabréf í Sony ekki verið lægri í þrjú ár.

Í frétt um málið í breska blaðinu The Guardian segir heimildarmaður innan Sony að félagið hafi vitað af þessu vandamáli síðan snemma í ágúst og hefði átt að bregðast fyrr við vandanum.

Alls er vitað um 203 tilfelli þar sem þessar fartölvur hafa ofhitnað og eldur kviknað í þeim þannig að eigendur þeirra hlutu brunasár. Af fjöldanum eru 83 tilfelli í Japan.

Sony segir að þeir muni bjóða upp á ókeypis viðgerðir á tölvunum í þeim 48 löndum sem Vaio fartölvur hafa verið til sölu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×