Innlent

Sjúkratryggingafrumvarp samþykkt á þingi

MYND/Anton

Frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingar, sem gerir ráð fyrir sérstakri Sjúkratryggingastofnun sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, var samþykkt á Alþingi fyrir stundu með 36 atkvæðum gegn sex. Sex þingmenn sátu hjá.

Þingmenn Vinstri - grænna og Framsóknarflokksins hafa lýst sig andsnúna frumvarpinu og sagði Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, við umræður í dag að verið væri að knýja í gegn stefnu Sjálfstæðisflokks og hluta Samfylkingar um að einkavæða heilbrigðiskerfið.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði hins vegar að markmið frumvarpsins væri að allir Íslendingar ættu völ á heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Þetta frumvarp myndi auðvelda það krefjandi eilífðarverkefni. Þá mótmælti Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, því að í frumvarpinu fælust skert réttindi sjúklinga eða einkavæðing.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. sagði við atkvæðagreiðsluna að árangur lagasetningarinnar byggðist á framkvæmd laganna. Framsóknarflokkurinn væri ekki tilbúinn að taka ábyrgð á því hvernig framkvæmdavaldið færi með lögin og því hygðust þingmenn flokksins sitja hjá. Þá sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, að verið væri að setja múlinn upp í Samfylkingarfólk á þingi og það væri heilbrigðisráðherra sem teymdi það í málinu. Samfylkingin væri gengin inn í Sjálfstæðisflokkinn í sumum málum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, benti á að aðeins einn af ráðherrum Samfylkingarinnar væri viðstaddur atkvæðagreiðsluna og hugsanlega væri einhverjum þeirra ekki eins rótt um frumvarpið og varaformanni flokksins. Sagði hann Vinstri - græn eru algjörlega andvíg markaðsvæðingu og einkarekstri í heilbrigðiskerfinu sem hér væri pakkað í silkiumbúðir. „Gróðahyggjan á hér eftir að vera lögmætt viðmið í heilbrigðisþjónustu á Íslandi," sagði Steingrímur.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra átti síðasta orðið og þakkaði hann þingmönnum fyrir starfið í kringum frumvarpið. Sagðist hann efast um að unnið hefði verið jafnvel að einu máli á þingi. Umræðan á þingi hefði verið upplýsandi með áberandi undantekningum og vísaði hann þar til orða Vinstri - grænna. Sagði ráðherra varhugavert þegar menn reyndu að gera ákveðna aðila innan heilbrigðiskerfisins og stjórnmálamenn tortryggilega. Í þessu frumvarpi hefði verið farið að ráðum færustu aðila. „Ég óska ykkur öllum til hamingju með þessa löggjöf," sagði heilbrigðisráðherra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×