Innlent

Sængurkonur liggja frammi á gangi

Miklar annir hafa verið á fæðingardeild Landspítalans frá því verkfall ljósmæðra hófst á miðnætti. Sængurlegudeildin er full og þar liggja þrjár nýbakaðar mæður frammi á gangi.

Mikið annríki hefur verið á fæðingardeild Landspítalans frá því verkfallið hófst. Rannveig Rúnarsdóttir, sviðsstjóri hjúkrunar, segir mikið álag hafa verið á deildinni í nótt og í morgun. Sjö börn hafi fæðst í nótt og skömmu fyrir hádegi voru ellefu konur á deildinni sem byrjaðar voru í fæðingu.

Yfirleitt eru fjórar ljósmæður á vakt á nóttunni á fæðingarganginum. Í nótt þurfit að kalla út þrjár til viðbótar sökum annríkis og þurfti að fá til þess undanþágur frá verkfallinu.

Verðandi mæður komu í nótt bæði frá Selfossi og úr Reykjanesbæ til að fæða þar sem fæðingardeildirnar þar voru lokaðar vegna verkfallsins. Sængurkvennadeildin hefur verið yfirfull og hafa þrjár konur þurft að liggja þar frammi á gangi í morgun. Búist er við að fleiri konur þurfi að liggja frammi á gangi í dag. Hreiðrið var opnað fyrir fæðingar en þar er ekki boðið upp á sængurlegu.

Verkfallið kemur mest niður á sængurlegu kvenna. Rannveig að segir þær konur, sem eru hraustar og gangi vel í fæðingu, verði sendar heim um leið og þær séu tilbúnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×