Enski boltinn

Dagar Beckham eru taldir

NordicPhotos/GettyImages

John Barnes, fyrrum leikmaður enska landsliðsins og Liverpool, segir að dagar David Beckham með enska landsliðinu séu endanlega taldir eftir frábæra frammistöðu Theo Walcott í gærkvöld.

Hinn 19 ára gamli Walcott fór á kostum og skoraði þrennu í 4-1 sigri Englendinga á Króötum á útivelli. Barnes bendir á að Fabio Capello hafi úr góðum leikmönnum að moða á hægri kantinum.

"Bæði David Bentley og Shaun Wright-Phillips eru að spila vel um þessar mundir. David Beckham er góður í föstum leikatriðum, en það hefur svo sem ekki skilað okkur miklu til þessa. Það var djörf ákvörðun að setja Walcott í liðið, en hraði hans gefur okkur aukna vídd. Engum varnarmönnum geðjast að því að þurfa að dekka fljóta menn og Wright-Phillips er líka leikmaður með hraða svo framtíðin virðist björt," sagði Barnes.

Hann varar við því að setja of mikla pressu á Walcott. "Hann er frábær leikmaður en við skulum ekki missa okkur. Síðast þegar við gerðum það, þegar hann var valinn í HM hópinn, stóð ferill hans í stað í eitt og hálft ár. Við skulum því leyfa honum að þroskast í stað þess að hlaða á hann pressu," sagði Barnes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×