Innlent

Beita íslenskan sjávarútveg fjárkúgun

Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök beita íslenskan sjávarútveg fjárkúgun með því að setja þorskinn á lista yfir tegundir í útrýmingarhættu en bjóða síðan vottun gegn háu gjaldi, til að losa íslenskan þorsk af listanum. Þetta er skoðun Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem segir íslensk fyrirtæki þegar farin að missa viðskipti vegna slíkrar mafíustarfsemi.

Enginn verslunareigandi kærir sig um að fá slíka mótmælendur fyrir utan búðina sína, en til að firra sig vandræðum frá World Wild Fund for Nature greip svissnesk verslanakeðja nýlega til þess að segja upp viðskiptum við þrjú íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Ástæðan, að sögn LÍÚ, er sú að umhverfisverndarsamtökin dreifa nú upplýsingum á mörgum tungumálum þar sem þorskur úr Atlantshafi er á rauðum lista yfir fisktegundir sem neytendur eru hvattir til að kaupa ekki.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir þessi samtök setja allan þorsk undir sama hatt, hvort sem hann komi af Íslandsmiðum eða öðrum miðum, þar sem ástandið sé verra.

En það er hægt að losna af listanum. Friðrik kveðst líkja því við vinnubrögð mafíunnar. Menn geti keypt sér vernd, til dæmis hjá apparati sem heiti Marine Stewardship Councel, sem gefi sig út fyrir að votta ábyrgar veiðar, og þá séu menn í lagi. Tengsl séu á milli WWF og vottunaraðilans. World Wildlife Fund for Nature hafi ásamt fleirum stofnað vottunarfyrirtækið og þar séu í stjórn aðilar sem tengist þeim samtökum. Geysihátt gjald sé sett upp fyrir slíka vottun, þessvegna 1,5% af verði á fiski upp úr sjó. Engin viti síðan hvað það kosti á morgun, en kannski það dýrasta geti svo orðið að missa verndina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×