Enski boltinn

Bestu mörk Steven Gerrard

Steven Gerrard
Steven Gerrard NordicPhotos/GettyImages

Steven Gerrard fyrirliði Liverpool stimplaði sig rækilega inn í liðið á ný þegar hann skoraði bæði mörk liðsins gegn Marseille í fyrrakvöld - annað þeirra stórglæsilegt.

Það kemst þó ekki á topp fimm yfir bestu mörk kappans ef marka má lauslega úttekt breska blaðsins Daily Telegraph.

Gerrard hefur ekki aðeins skorað glæsileg mörk fyrir þá rauðu, heldur hafa mörg af bestu mörkum hans komið á mjög þýðingarmiklum augnablikum.

5. Liverpool 2 - Southampton 1 árið 2001

Það er sannarlega af nógu að taka þegar þrumufleygar Gerrard eru annars vegar, en hver hefur ekki gaman af skotum í slá og inn? Þetta frábæra langskot miðjumannsins var eitt af þeim og Paul Jones markvörður Southampton kom engum vörnum við.

Smelltu hér til að sjá markið

4. Liverpool 3 - AC Milan 3 (Liverpool vann í vítakeppni) árið 2005

Liverpool var undir 3-0 í hálfleik í þessum sögulega leik eins og flestir muna. Steven Gerrard kveikti í ótrúlegri endurkomu sinna manna með marki á 54. mínútu, og þó það sé kannski ekki glæsilegasta mark hans - var verður mikilvægi þess ekki mælt.

Smelltu hér til að sjá markið 

3. Liverpool 1 - Middlesbrough 1 árið 2005

Hér er á ferðinni eitt allra besta mark Steven Gerrard út frá tæknilegu sjónarmiði. Gerrard tók boltann á bringuna og þrumaði boltanum efst í hornið af rúmlega 30 metra færi. Þetta mark væri líklega ofar á listanum ef hin mörkin hans hefðu ekki verið jafn þýðingarmikil og raun ber vitni.

Smelltu hér til að sjá markið 

2. Liverpool 3 - Olympiakos 1 árið 2004

Ef ekki hefði verið fyrir þetta stórkostlega mark, hefði Liverpool aldrei komist í aðstöðu til að lyfta Evrópubikarnum í Istanbul árið eftir. Liverpool nægði ekki að vinna leikinn með einu marki, því þá hefði liðið fallið úr keppni. Þrumufleygur Gerrard er stuðningsmönnum liðsins ógleymanlegur og meira að segja sjálfur Andy Gray á Sky átti bókstaflega ekki til orð til að lýsa tilþrifum Gerrard.

Smelltu hér til að sjá markið 

1. Liverpool 3 - West Ham 3 (Liverpool vann í vítakeppni) árið 2006

Eins og Olympiakos og AC Milan fengu að komast að árin áður, hættir Steven Gerrard ekki fyrr en leikurinn hefur verið flautaður af. West Ham hafði yfir 3-2 í þessum magnaða úrslitaleik bikarsins þegar venjulegur leiktími rann út, en þá kom Gerrard til skjalanna.

Hann kallar þetta mark það besta sem hann hefur skorað á ferlinum og ekki af ástæðulausu. Bylmingsskot hans þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma mun aldrei falla í gleymsku, en Gerrard viðurkenndi síðar að hann hefði verið gjörsamlega örmagna síðustu mínútur leiksins.

Smelltu hér til að sjá markið 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×