Innlent

Sakar formann og þingflokksformann um einkavinavæðingu

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sakar formann og þingflokksformann flokksins um einkavinavæðingu. Hann segir þingflokksformanninn ekki starfi sínu vaxinn og er til í að taka við embættinu af honum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði á Vísi í gær að menn innan miðstjórnar flokksins legðu Kristinn H. Gunnarsson þingflokksformann flokksins í einelti. Jón Magnússon segir að hann hafi ekki lagt Kristinn í einelti og segir að formaður flokksins verði að finna orðum sínum stað. „Hins vegar vil ég benda á það að þann 23. maí síðastliðinn þá fór fram umræða um einmitt vinnubrögð og verklag Kristins H. Gunnarssonar og þá voru greidd atkvæði og hann fékk raunverulega á sig vantraust," segir Jón.

Þrettán hafi greitt atkvæði gegn Kristni en þrír honum í vil að honum sjálfum meðtöldum. Jón segir að meðal þeirra sem greitt hafi atkvæði gegn Kristni hafi verið Guðjón Arnar Kristjánsson.

Jón segir að hann sé ekki sáttur við störf Kristins því hann hafi ekki boðað þingflokksfundi í allt sumar þegar þingflokkurinn hefði átt að vera að vinna í sambandi við þau alvarlegu mál sem væru að gerast í þjóðfélaginu. Hann segist tilbúinn að taka við starfi þingflokksformanns en sækist ekki sérstaklega eftir því.

Þá talar Jón um einkavinavæðingu innan flokksins að hálfu formannsins og þingflokksformannsins.  Hann segir að hæfasta fólkið sé ekki valið til starfa og segir að framkvæmdastjóri flokksins sé vinur og stuðningsmaður formannsins.

Núverandi framkvæmdastjóri, Magnús Reynir Guðmundsson, er Ísfirðingur eins og formaður flokksins en Jón og margir aðrir studdu Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmann, í starfið. Spurður segir Jón að flokksmenn verði að dæma hvort Magnús Reynir hafi staðið sig vel í starfi, en hann sé tvímælalaust hluti af einkavinavæðingunni.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×