Innlent

Norðmenn vilja íslenska vini

Forsætisráðherra segir Íslendinga hafa þurft að leita sér nýrra vina í þrengingunum núna, eftir að rótgrónir vinir hafi ekki rétt hjálparhönd. Iðnaðarráðherra segir Bandaríkin gefa Íslendingum fingurinn. Fjármálaráðherra Noregs segir Norðmenn tilbúna í viðræður um aðstoð, en íslensk stjórnvöld hafi ekki leitað eftir henni.

Seðlabanki Íslands tilkynnti í morgun að Rússar hafi samþykkt að veita Íslendingum lán upp á 4 milljarða evra. Skömmu fyrir hádegi kom hins vegar önnur tilkynning um að löndin hafi ákveðið að hefja viðræður um lán. Geir Haarde forsætisráðherra var spurður um lánið frá Rússum á fréttamannafundi í morgun, þar sem fjöldi erlendra fréttamanna var einnig.

Kristin Halvorsen fjármálaráðherra Noregs opnaði fyrir það í dag að Norðmenn kæmu Íslendingum til hjálpar í hinni þröngu stöðu. Í viðtalið við fjölmiðilinn E 24 í dag segir hún að ef íslensk stjórnvöld myndu leita eftir aðstoð norskra stjórnvalda, væru norsk stjórnvöld eflaust vera tilbúin til viðræðna, en íslensk stjórnvöld hafi hins vegar ekki leitað eftir slíkri aðstoð.

Lars Sponheim leiðtogi Venstre í lýsti í dag því yfir á norska stórþinginu að Norðmönnum bæri að hjálpa Íslendingum. Hann sagði að norska ríkissstjórnin ætti að setja sig í samband við bræður sína í vestri og kanna hvernig hægt væri að koma til aðstoðar. Hann sagði Íslendinga og Norðmenn náskylda og minnti á að blóð væri þykkara en vatn.

Engin viðbrögð fengust frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík í dag vegna fyrirhugaðs láns frá Rússum og þeim ummælum sem fallið hafa, en málið kom til umræðu á Alþingi í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×