Viðskipti innlent

Reykjanesbær í viðræðum um að hjálpa SpKef

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Reykjanesbær vinnur nú að því að koma Sparisjóði Keflavíkur til hjálpar í því óveðri sem gengur yfir íslenskt fjármálakerfi. Bæjarstjórinn Árni Sigfússon segir í samtali við Vísi að verið sé að skoða málið „mjög alvarlega".

„Við erum reiðubúin að skoða það mjög alvarlega að koma að Sparisjóði Keflavíkur með einhverjum hætti," segir Árni. Hann segir ýmsar leiðir færar í því efni. „hér eru hundruð manna stofnfjáreigendur, mest eldra fólk sem á þarna mest sitt sparifé. Við höfum góðar vonir um að það verði hægt að vinna með sparisjóðnum til þess að hann standist þessi áföll."

Árni segir að rætt sé um að leggja inn aukið sparifé til sjóðsins og þá í samstarfi við ríkið, önnur sveitarfélög og lífeyrissjóði, þannig að hægt verði að styðja sparisjóðina áfram.

„Við höfum verið að fara yfir þessi mál undanfarna daga og erum vongóð um að Sparisjóðurinn í Keflavík standist þetta, að hann verði í nægilega góðum björgunarbúnaði. Það er mjög mikilvægt að menn standi með sparisjóðnum í sínu sveitarfélagi og við gerum það hér í Reykjanesbæ," segir Árni.

Hann bendir á að í þeim stærðum sem rætt er um í dag sé Sparisjóður Keflavíkur lítill banki, „en gríðarlega mikilvægur fyrir þetta samfélag og við teljum okkur hafa bolmagn til að vinna þetta verk," segir bæjarstjórinn að lokum.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×