Innlent

Össur: Ríkisstjórnin „mjög nálægt“ samkomulagi við IMF

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir ríkisstjórn Íslands mjög nálægt því að komast að samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um björgunarpakka fyrir landið. Í viðtalið við Bloomberg fréttaveituna í dag sagði hann að starfsmenn sjóðsins væru að leggja lokahönd á tillögur sínar til ríkisstjórnarinnar.

Ráðherrann endurtók orð sín frá fundi Samfylkingarinnar í gær þar sem hann sagðist hafa fullvissu fyrir því frá starfsmönnum utanríkisráðuneytisins að norðurlandaþjóðirnar myndu fylgja í kjölfar IMF og veita Íslendingum lán. Hann bætti raunar um betur og sagði: „Við höfum raunar fengið staðfestingu fyrir því sem ég myndi kalla mjög gjafmilda lánafyrirgreiðslu." Þá sagði hann Japana einnig líklega til þess að leggja til fé, „ef og þegar samkomulagi hefur verið komið á við IMF."

Bloomberg hafði samband við Norrænu seðlabankana og spurði þá út í málið. Upplýsingafulltrúi sænska Seðlabankans neitaði að tjá sig um mögulegt lán til Íslendinga, upplýsingafulltrúi norska Seðlabankans sagðist ekki hafa vitneskju um neitt lán til Íslendinga sem tengdist IMF og ekki náðist í talsmann danska Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×