Skoðun

IMF og stórslysa-kapítalisminn

Árni Daníel Júlíusson skrifar um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

Kanadíska blaðakonan Naomi Klein hefur skrifað bók sem heitir The Shock Doctrine: The Rise of Disaster Capitalism. Bókin fjallar um það hvernig nýfrjálshyggjumenn og stofnanir þeirra eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nýta sér stórslys og stóráföll af ýmsu tagi til að koma stefnu sinni í framkvæmd. Meðal dæma sem hún nefnir eru einkavæðing skólakerfisins í New Orleans eftir að fellibylurinn Katrina hafði lagt borgina í eyði, einkavæðing og einkavinavæðing Bandaríkjanna á efnahagskerfinu í Írak eftir innrásina 2003, frjálshyggjutilraunin í Chile eftir morðið á Salvador Alliende 11. september 1973 o.fl. o.fl.

Sameiginlegt þessum dæmum er að þeir sem ástunda nýfrjálshyggju af þessu tagi leita uppi svæði, aðstæður og lönd þar sem efnahagskerfið hefur orðið fyrir svo miklu áfalli að auðvelt er að koma stefnuskrá nýfrjálshyggjunnar í framkvæmd.

Eitt af bestu dæmum um framkvæmd slíkrar stefnuskrár er líklega Rússland eftir fall Sovétríkjanna. Nýfrjálshyggjumenn fengu þar frítt spil og komu stefnuskrá sinni í framkvæmd. Velferðarkerfi sósíalismans var tekið niður og eignir ríkisins afhentar örfáum ólígörkum á silfurfati. Fámenn yfirstétt ræður nú ríkjum í Rússlandi og stjórnar með harðri hendi. Hér ætla nú Íslendingar að leita aðstoðar eftir sitt eigið efnahagslega stórslys. Rússar sjá sér leik á borði, þeir þekkja hvað hægt er að gera við slíkar aðstæður. Möguleikarnir eru ótakmarkaðir fyrir einbeitta og sniðuga menn.

Annað mjög gott dæmi er „aðstoð“ Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við lönd í Austur-Asíu eftir fjármálakreppu þar um slóðir árið 1997.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nýtt sér aðstæður þar sem stjórnvöld og almenningur voru í sjokki eftir fjármálahrun á verðbréfamörkuðum og heimtuðu „umbætur“ í anda nýfrjálshyggjunnar. „Umbætur“ þessar kostuðu Austur-Asíubúa enn meira en fjármálakreppan sjálf og Naomi Klein notar aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vandanum í Austur-Asíu 1997 sem enn eitt dæmi um það hvernig nýfrjálshyggjumenn nýta sér áföll af ýmsu tagi til að koma stefnuskrá nýfrjálshyggjunnar í framkvæmd.

Það verður að segjast að líkurnar á því að aðstoð frá aðilum sem þeim sem Íslendingar eru núna að reyna að biðja um hjálp í vandræðum sínum er ekki líkleg til að reynast raunveruleg aðstoð. Langlíklegast að bæði Rússar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni reyna að fiska í gruggugu vatni hins efnahagslega stórslyss sem Íslendingar hafa orðið fyrir.

„Aðstoðin“ gæti því orðið til að gera illt verra. Best væri að bíða átekta um sinn og sjá hverju fram vindur í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, byggja upp nýjar bankastofnanir og koma á gjaldeyrisviðskiptum í gegn um þær. Við eigum að hafa gjaldeyrisvaraforða til níu mánaða, eftir því sem Seðlabankinn segir, svo ekkert virðist liggja á.

Höfundur er sagnfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×