Innlent

Ingibjörg segir bresk stjórnvöld hafa rústað Íslandi

sev skrifar

Breska blaðið Independent fullyrðir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafi sent breskum þingmönnum bréf þar sem hún fordæmir notkun þarlendra stjórnvalda á hryðjuverkalögum til að frysta eignir íslenskra banka.

„Sjaldséð diplómatíska árás á bresk stjórnvöld," kallar blaðið bréfið sem það hefur undir höndum. Í því segir Ingibjörg að orðræða breskra stjórnvalda í tengslum við bankakrísuna hafi rústað Íslandi og vakið mikla andúð í garð Íslendinga. Íslendingar sem þjóð séu litaðir af hryðjuverkastimplinum, og í verði sumum tilfellum fyrir persónulegum árásum.

Ingibjörg sagði í bréfinu að aðgerðir Brown hafi gert viðskipti milli landanna afar erfið, en vonaðist til þess að hægt væri að endurbyggja jákvæð samskipti Bretlands og Íslands.

„Við erum að gera okkar besta til að leysa vandamálið í samvinnu við breska fjármálaráðuneytið. En við erum hneyksluð á aðgerðum breskra stjórnvalda. Það er afar erfitt fyrir íslendinga að skilja hvernig hægt er að nota hryðjuverkalög gegn góðum nágranna og bandamanni. Það er óskiljanlegt að sjá íslenskt fyrirtæki við hlið Al Kaída og Talíbana á heimasíðu fjármálaráðuneytisins," segir Ingibjörg í bréfinu.

Blaðið segir Austin Mitchell þingmann Verkamannaflokksins, sem fer fyrir þinghópi sem fer yfir samskipti landanna, hafa hvatt David Miliband utanríkisráðherra til þess að leysa deiluna. Hann sagði bresk stjórnvöld hafa gengið harkalega fram gegn Íslendingum. „Við hefðum átt að hjálpa en við níddumst á þeim og gerðum vandamálið verra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×