Innlent

Rætt um óróamenn í Framsókn

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, var spurður að því hvort hann væri eini maðurinn í Framsóknarflokknum sem með viti væri og hvort aðrir væru óróamenn sem vildu vinna flokknum tjón með umræðu um Evrópumál.

Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, benti á að Bjarni hefði látið hafa það eftir sér að ESB-trúboð stæði yfir í boði ríkisins og hefði hann þar vísað til orða greiningardeildar Nýja Glitnis. Þá hefði þingmaðurinn einnig sagt að innan fjölmiðla væri því haldið fram að fylgi við ESB-aðild væri meira en raunin væri.

Vísaði Gunnar svo til fréttar Vísis í gær af því að meirihluti þingflokks Framsóknarflokksins væri fylgjandi aðildarviðræðum við ESB og enn fremur í yfirlýsingar kjördæmissambanda Framsóknarflokksins um Evrópumál. Sagði Gunnar Bjarna hafa sagt að óróamenn í flokknum væru að vinna honum tjón í þessum málum og vildi Gunnar vita hvort Bjarni væri þá eini maðurinn með viti í flokknum.

Bjarni svaraði því til nú væri skörin farin að færast upp á bekkinn ef Gunnar vildi hafa áhrif á skoðanir í öðrum flokkum. Hann hefði sagt í fjölmiðlum að hann teldi alls ekki að allir innan Framsóknar væru óróamenn. Hann stæði hins vegar við það að ákveðnum fjölmiðlum hefði verið beitt af mikilli óbilgirni gegn formanni flokksins.

Bjarni sagðist enn þeirrar skoðunar að Glitnir héldi úr áróðri fyrir ESB-aðild og það hefðu fjölmiðlarnir einnig gert. Í raun og veru væri staðan sú að hún ætti að vera öllum lýðræðissinnum áhyggjuefni, hvort sem þeir aðhylltust ESB eða ekki. Þótt honum þetta ekki merkilegt erindi hjá Gunnari á meðan vinna fjárlaganefndar lægi niðri. Benti hann enn fremur á að skiptar skoðanir væru um Evrópumálum í öllum flokkum, líka Samfylkingunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×