Innlent

Boða annan borgarafund og vilja flokksformenn á staðinn

Frá fyrri borgarafundinum 27. nóvember.
Frá fyrri borgarafundinum 27. nóvember.

Hópur manna sem stóð fyrir opnum borgarafundi í Iðnó fyrir rúmri viku blæs til annars fundar á laugardaginn kemur á sama stað vegna efnahagsástandsins.

Skorað er á formenn og varaformenn stjórnmálaflokka til að mæta og sitja fyrir svörum. Að þessu sinni verða frummælendur fjórir: Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Lilja Mósesdóttir hagfræðingur, Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi, og Halla Gunnarsdóttir blaðamaður.

„Ráðamenn! Þetta er einfaldasta form lýðræðisumræðu sem hugsast getur - að þeir sem stjórna landinu tali milliliðalaust við fólkið og hlusti á umkvartanir þess, spurningar og hugmyndir. Við skorum því á ykkur, formenn og varaformenn flokkanna, að mæta á fundinn. Gert er ráð fyrir einum fulltrúa frá hverjum flokki á sviðinu," segir í tilkynningu aðstandenda fundarins.

Um 300 manns fylltu Iðnó á fyrri fundinum og var mikill hiti í fólki þegar alþingismenn svöruðu spurningum fundargesta um efnahagsástandið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×