Innlent

Ólíklegt að Bretar og Hollendingar geti stöðvað umsókn Íslands

Ólafur Ísleifsson
Ólafur Ísleifsson

Ólíklegt verður að teljast að Bretar og Hollendingar geti stöðva umsókn Íslendinga um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að mati Ólafs Ísleifssonar hagfræðings og fyrrverandi aðalfulltrúi kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

„Mér er það mjög til efs að þeir geti komið í veg fyrir þetta, en ég get skilið að þeir geti tafið málið eins og reyndin virðist hafa orðið," segir Ólafur.

„Eins og málið hefur verið lagt fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá liggur fyrir samkomulag um efnahagsáætlun og fjárhagslega fyrirgreiðslu af hálfu IMF til þess að styðja við þá áætlun. Forstjóri IMF hefur lýst því að Íslendingar hafi lagt fram metnaðarfulla áætlun í efnahagsmálum sem sé þess verðug að alþjóðlegir aðilar leggi okkur lið," segir Ólafur og bætir því við að stjórnskipulag sjóðsins sé þannig að 24 manna framkvæmdarstjórn þurfi að staðfesta samkomulagið.

„En það væri algjört fádæmi í sögu sjóðsins ef samkomulag sem hefur tekist með þessum hætti og hefur fengið blessun yfirstjórnar IMF yrði stöðvað í framkvæmdastjórninni. Þessi efnahagsáætlun hefur verið samin með aðstoð starfsmanna sjóðsins og þeir hafa lagt hana fyrir yfirstjórnina. Það myndi jafngilda vantrausti framkvæmdarstjórnar á yfirstjórn sjóðsins að reka hana til baka með samkomulag sem hún hefur skrifað upp á með þessum hætti."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×