Viðskipti erlent

Ellilífeyrisþegar á Spáni að tapa húsum sínum á Landsbankanum

Hundruðir ellilífeyrisþega á Spáni, að mestu Bretar, standa frammi fyrir því að tapa húsum sínum vegna fjárfestingarsjóðs á vegum Landsbankans í Luxemborg.

Dæmið gekk út á að ellilífeyrisþegarnar tóku lán út á húsin sín, fengu fjórðung upphæðarinnar í vasann en afgangurinn var settur í fjárfestingasjóð Landsbankans. Fólki var talin trú um að ávöxtun sjóðsins myndi alfarið standa undir afborgunum og vöxtum af láninu.

Þetta fyrirkomulag í fjárfestingum hefur verið bannað í Bretlandi frá árinu 1990 enda þykir það ótraust og stórhætta á að illa fari fyrir þeim sem liggja með fé sitt í sjóðum af þessu tagi. Fjöldinn sem þegar vitað að hafi fallið fyrir gylliboðum Landsbankans er um 600 manns.

Breska blaðið Daily Mail greinir frá málinu í dag. Þar er rætt við nokkra ellilífeyrisþega sem sjá fram að þeir eru að missa hús sín enda er Landsbankinn í Luxemborg gjaldþrota og undir skiptastjórn Deloitte.

Einn þeirra sem rætt er við, John Hermus er 72 ára, giftur og á fimm uppkomi börn. Hann á hús á Costa Blanca ströndinni. Árið 2006 þurfti hann á láni að halda. Fjármálasérfræðingur ráðlagði honum að taka 348.000 pund að láni og veðsetja húsið upp í topp fyrir láninu.

Meirihluti lánsins var síðan settur í fjárfestingasjóð Landsbankans. Hermus segir að á fyrstu mánuðunum hafi hann fengið borgað úr sjóðnum en síðan fór þær greiðslur minnkandi og hurfu svo alveg á þessu ári.

Í vor fékk Hermus svo fjármálaráðgjafann í heimsókn ásamt fulltrúa frá Landsbankanum. Honum var tjáð að hann þyrfti að borga 23.700 pund af láninu. Það gat hann ekki og fékk því frest. Og þegar Landsbankinn varð gjaldþrota var skuld hans komin í 39.400 pund.

Nú óttast Hermus að húsið verði tekið af honum þar sem hann getur ekki staðið í skilum með afborganir af láninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×