Viðskipti innlent

Ísland er ekki á dagkrá IMF þessa vikuna

Samkvæmt heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) er Ísland ekki á dagkrá þar á bæ þessa vikuna. Hins vegar mun stjórn IMF ræða málefni El Salvador, Líbanons, Seychelles-eyja og Armeníu í vikunni.

Greining Glitnis fjallar um lánið frá IMF í Morgunkorni sínu. Þar er haft eftir forsætisráðherra að umsóknin verði vonandi afgreidd á næstu dögum. Afgreiðslu lánsins hefur nú verið frestað í þrígang.

Greining segir að stjórnvöld hafa ekki gefið það skýrt til kynna hverjar ástæður þessa seinagangs eru en ýmsir ráðamenn hafa þó látið í veðri vaka að Holland og Bretland standi í vegi fyrir afgreiðslu lánsins vegna ósættis um innistæðutryggingar Icesave-reikninga.

Önnur ástæða þess að afgreiðslunni hefur verið seinkað gætu verið erfiðleikar tengdir því að tryggja viðbótarlán frá einstökum ríkjum en lán IMF nemur eingöngu þriðjungi þess sem þörf er talin á.

„Ekki er þó hægt að staðhæfa neitt í þessum efnum enda eru þær upplýsingar sem berast af gangi mála afar litlar og misvísandi," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×