Innlent

Bretar styðja IMF-aðstoð - Hollendingar standa í veginum

Wouter Bos fjármálaráðherra Hollands sagði í sjónvarpsviðtali í Hollandi í dag að Hollendingar myndu standa í vegi fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn afgreiði beiðni Íslands um aðstoð uns deilan um Icesave er leyst. Þetta segir í frétt Financial Times. Ráðherrann er sagður hafa bætt við: „Sem betur fer erum við með öfluga bandamenn í Bretum og Þjóðverjum sem eiga í sömu vandræðum með Íslendinga."

Í greininni er því þó haldið til haga að Gordon Brown hafi einmitt lýst því yfir í dag á blaðamannafundi að hann styddi beiðni Íslands um aðstoð frá IMF. Í greininni á Financial Times er einnig talað við Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sem segist hafa rætt við forsvarsmenn Bretlands sem hafi sagt sér að áður en þeir gætu stutt Íslendinga þyrfti að leysa ákveðin mál. „Ég var ekki í nokkrum vafa um hvað þeir áttu við," segir Össur.

Þá segir einnig í fréttinni að íslenskir ráðamenn telji að um 500 milljónir dollara vanti enn upp á þær fjárhæðir sem talið er að nægi til þess að koma landinu á réttan kjöl. Rætt er við ónafngreindan emættismann sem segir að verið sé að sækjast eftir láni hjá Bandaríkjamönnum, Rússum, Kínverjum og Japönum en að þær umleitanir hafi engan árangur borið.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×