Innlent

Ingibjörg: Hollendingar og Bretar leggja ofurkapp á að tefja vegna Icesave

Geir H. Haarde forsætisráðherra segist ekki vilja taka svo djúpt í árinni að segja að aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé að sigla í strand vegna Icesave-deilunnar. Þetta kom fram á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Ingibjörg Sólrún Gíslasóttir utanríkisráðherra sagði þó ljóst að Bretar og Hollendingar legðu ofurkapp á að deilan yrði leyst áður en sjóðurinn afgreiði umsókn Íslendinga um aðstoð.

Ingibjörg sagði einnig að málið væri flókið þar sem erfitt væri að finna óháða aðila til þess að leysa málið. Geir bætti við að íslensk stjórnvöld væru hins vegar öll af vilja gerð til þess að leysa deiluna. Geir sagði ljóst að Íslendingar yrðu að fara að fá skýr svör varðandi IMF-aðstoðina en hann vildi ekki leggja út af því hvað gerðist fengist hún ekki í gegn.

Varðandi forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun þar sem haft var eftir fulltrúa Sviss í framkvæmdastjórn IMF að erindi Íslands hefði ekki borist sjóðnum sagði Geir það ekki rétt. Hann hefði kannað það í morgun og fengið staðfest að bréfið hefði verið sent 3. nóvember. Stjórnarmenn í sjóðnum fái erindið hins vegar ekki fyrr en boðað hafi verið formlega til fundarins.

Þá var Geir spurður út í aðgerðir ríkisins til þess að afla lána annars staðar frá, í Rússlandi og Kína. Þau mál eru enn í vinnslu að sögn Geirs og vildi hann ekki tjá sig nánar um það.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×