Enski boltinn

Óttast að kreppan bíti Liverpool í janúar

Eigendur Liverpool skulda háar fjárhæðir og gætu lent í vandræðum á komandi mánuðum
Eigendur Liverpool skulda háar fjárhæðir og gætu lent í vandræðum á komandi mánuðum AFP

Keith Harris, maðurinn sem tekið hefur þátt í að semja um yfirtöku á fimm félögum í ensku úrvalsdeildinni, segist óttast hið versta fyrir hönd Liverpool á næstu mánuðum.

Harris var einn af mönnunum sem sá um að keyra í gegn yfirtöku á Chelsea, Aston Villa, Hull, West Ham og Manchester City og hann segir að Liverpool gæti þurft að selja leikmenn í janúar til að mæta gríðarlegum skuldum eigenda félagsins.

Sagt er að þeir Tom Hicks og George Gillett hafi tvo mánuði til að greiða allt að 350 milljón punda skuldir tengdar félaginu.

Harris segir að bankarnir gætu þurft að gera það upp við sig hvort þeir ættu að hirða félagið upp í skuldir ef eigendunum tekst ekki að endurfjármagna sig eða fá aukið hlutafé. Þá kæmi til greina að félagið gæti þurft að selja eitthvað af bestu leikmönnum sínum.

"Félagið sem ég hef mestar áhyggjur af er Liverpool. Það hefur aldrei verið eins erfitt að finna kaupendur. Það snýst ekki um það að karpa um verð, heldur hvort kaupendur fást yfir höfuð," sagði Harris.

Hann hefur áhyggjur af bönkunum sem lánuðu Liverpool og telur óvíst að þeir geti haldið því áfram.

"Liverpool þarf að greiða skuldir í janúar sem hugsanlega væri hægt að fresta í sex mánuði, en bankarnir sem eiga inni hjá félaginu, Royal Bank of Scotland og Wachovia, eru tveir af bönkunum sem hvað verst hafa komið út úr kreppunni. Hvort sem þeir vilja lána Liverpool áfram eða ekki - er óvíst að þeir hafi einu sinni tök á því," sagði Harris sem er stjórnarformaður Seymour Pierce fjárfestingabankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×