Viðskipti innlent

Flot krónunnar gæti skapað öldu af gjaldþrotum

Poul Thomsen.
Poul Thomsen.

Poul Thomsen, aðstoðarforstjóri Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), segir að flot krónunnar gæti skapað öldu af gjaldþrotum fyrirtækja og heimila, það er þeirra sem eru með mikið af lánum í erlendum myntum.

Þetta kom fram á símafundi Thomsen með íslenskum fréttamönnum í dag. Thomsen segir að til lengri tíma litið muni krónan ná stöðugleika í kringum núverandi gengi Seðlabankans eða að evran muni kosta um 177 krónur þegar fram í sækir.

Af öðrum punktum sem fram komu á fundinum má nefna að lántökukostnaður íslenska ríkisins vegna 2,1 milljarða dollara lánsins frá IMF er rúmlega fjögur prósent af upphæðinni eða rúmlega 11 milljarðar króna.

Thomsen neitaði því að frestun á afgreiðslu lánsins hjá IMF væri vegna andstöðu Breta og Hollendinga. Það væri misskilningur. Frestunin væri  einfaldlega til komin vegna þess að heildarpakki hefði ekki fyrir, það er ekki hafði tekist að ná saman þeirri lágmarksupphæð sem þurfi (5 milljörðum dollara). „Við gátum ekki farið af stað með áætlun okkar fyrir þetta lá ljóst fyrir," segir Thomsen.

Hvað varðar stýrivextina segir Thomsen að því fyrr sem stöðugleiki komist á með gengi krónunnar því fyrr muni verða hægt að lækka stýrivextina.

Aðspurður um þá óvissu sem er í spá IMF hvað varðar framtíðina í fjármálalífi landsins segir Thomsen að enn sé engin efnahagsreikningur til staðar fyrir nýju bankana og slíkt geri mjög erfitt að spá fyrir um framvinduna.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×