Innlent

Ríkisstjórnin brást og Seðlabankastjórn verður að víkja

Ráðherrar hlusta á framsögur í kvöld.
Ráðherrar hlusta á framsögur í kvöld. MYND/Egill

Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði var á meðal frummælenda á borgarafundinum í Háskólabíói. Þar sagði hann að ríkisstjórnin hefði brugðist á sínum tíma þegar ákveðið var að einkavæða bankana og menn handgengir stjórnvöldum fengu að kaupa þá án þess að hafa nokkra reynslu af bankarekstri. Seðlabankinn fékk einnig yfirhalningu hjá Þorvaldi og um miðbik ræðu sinnar krafðist hann þess að bankastjórnin víki.

Fyrir þessi ummæli uppskar Þorvaldur gríðarlegt lófaklapp úr salnum og raunar tóku nokkrir alþingismenn þátt í klappinu, þar á meðal Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar úr Samfylkingunni.

Þorvaldur sagði bankanum ekki treystandi fyrir því að fara með upphæðirnar sem þjóðin hefur fengið að láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nokkrum þjóðum. Hann sagði þó að krafa AGS um öryggisúttekt á Seðlabankanum veki von.

Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur hjá Háskóla Íslands, kom næst í pontu og hennar ræða gekk út á þá kröfu margra að efnt verði til kosninga. „Við verðum að fá að kjósa," sagði Silja Bára í lok ræðu sinnar og uppskar einnig mikið lófaklapp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×