Innlent

Davíð ber fyrir sig bankaleynd

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson.

Davíð Oddssson, seðlabankastjóri, neitaði að upplýsa viðskiptanefnd Alþingis á fundi hennar í morgun hvað hann átti við með ummælum sínum sem hann lét falla á fundi Viðskiptaráðs 18. nóvember um að hann hefði vitneskju um hvað hefði ráðið afstöðu breskra yfirvalda þegar hryðuverkalögum var beitt gegn Íslandi. Davíð segir að bankaleynd komi í veg fyrir að hann gefi upp þessar upplýsingar.

Fundurinn olli vonbrigðum

Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar, segir að fundurinn hafi valdið talsverðum vonbrigðum þar sem Davíð hafi ekki verið reiðubúinn að upplýsa nefndina um ástæður þess sem hann telur vera fyrir því að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf gagnvart Íslendingum.

Ágúst segir að Davíð hafi sagt sig vera bundinn trúnaði og ekki geta vitnað í einstaka menn. ,,Hann sagði að bankaleynd ætti við í þessu tilfelli sem er afar óheppilegt í ljósi þess að fram hafa komið ráðherrar sem segjast ekki vita af hverju Bretar beittu lögunum," segir Ágúst og bætir við að afar mikilvægt sé að fá þessar upplýsingar upp á borðið á sama tíma og íslensk stjórnvöld skoði réttarstöðu sína gagnvart Bretum.

Afstaða Davíðs óþolandi

,,Það kemur spánskt fyrir sjónir að hann skuli hylja sig á bak við bankaleynd því í ræðunni á fundi viðskiptaráðs sagði hann að bankaleynd eigi ekki við ýmis atriði hvað varðar þetta mál."

Ágúst segir að viðskiptanefnd sé engu nær hvað olli ákvörðun Breta því Davíð hafi kosið að deila því ekki með henni og slíkt sé óþolandi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×