Innlent

Fundu þúsundir peninga í Skildinganesi

Frá vinnu í Skildinganesi.
Frá vinnu í Skildinganesi.

Þúsundir peninga fundust við jarðrask í Skerjafirðinum í Reykjavík í gær. Um var að ræða fimmeyringa og tíeyringa frá 1981. Með peningunum hafa komið í ljós tægjur af umbúðum úr taui, og merkimiðar sem benda til að myntin hafi legið í peningaflutningspokum, sem hafi rotnað og eyðst. Svo virðist sem peningunum hafi verið komið fyrir í gjótu sjávarmegin við sjóvarnargarðinn.

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir endurbætur á sjóvarnargarði við Skildinganes í Skerjafirðinum í Reykjavík. Fornleifastofnun Íslands hefur fylgst með framkvæmdunum fyrir Reykjavíkurborg, enda er varnargarðurinn reistur á eldri garðlögum, eða túngarði gamla heimatúnsins hjá Skildinganesbænum. Guðjón Kristinsson hleðslumaður vinnur við að hlaða upp garðinn. Þegar hreyft var við steinum framan við gamla varnargarðinn ultu hundruðir peninga fram.

Oddgeir Hansson fornleifafræðingur, sem hefur eftirlit með fornleifavinnunni, segir í samtali við Vísi að peningarnir muni líklegast enda á Árbæjarsafni. Búið sé að telja tíeyringana talsins og þeir virðist hafa verið um fjögur þúsund en einnig hafi verið um fimmeyringa að ræða. Oddgeir segir að lögreglan muni skoða hvernig peningarnir hafi komist á þennan stað, því að greinilega sé um að ræða peninga úr einhverri peningasendingu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×