Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Hótun Davíðs loksins orðin opinber

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Hótun Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í garð Geirs Haarde forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins er loksins orðin opinber. Davíð hótar Geir að kljúfa flokkinn ef Geir víkur honum úr sæti seðlabankastjóra.

Það hefur vakið furðu margra undanfarnar vikur hvað Geir Haarde hefur þverskallast við að ljá máls á brotthvarfi Davíðs úr Seðlabankanum. Geir hefur ítrekað sagt að slíkt muni ekki gerast „á sinni vakt".

Það liggur ljóst fyrir að Davíð Oddsson nýtur alls ekki trausts meðal erlendra fjármálasérfræðinga og bankamanna. Raunar hefur hann verið hafður að háði og spotti í erlendum fjármálatíðindum og ýmsar ákvarðanir hans undanfarnar vikur sagðar bera vott um „tæknilega vankunnáttu og fáfræði um markaðinn".

Samt hefur Geir ætíð staðið við bakið á Davíð og sagt að hann beri traust til Davíðs hvað sem hefur verið tautað og raulað. Ástæðan er nú ljós, Geir hefur sett flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum.

Raunar mátti skilja það sem svo að Geir ætlaði að fara einhverskonar fjallabaksleið að því að losa sig við Davíð. Það er þegar hann tilkynnti um að Fjármálaeftirlitið yrði sameinað Seðlabankanum að nýju. Þá hefði myndast tækifæri til að skipta út yfirstjórn Seðlabankans. Davíð hefur nú svarað þeirri hugmynd.

Það vekur einnig athygli með hvaða hætti Davíð gerir hótun sína opinbera. Í viðtali við héraðsfréttablað á Fjóni í Danmörku. Átti að fara hljótt með málið?

Geir Haarde hefur sýnt undanfarna tvo mánuði að hann er einhver ákvarðanafælnasti maður landsins . Nú hefur Davíð Oddsson hinsvegar kastað blautri tusku í andlit hans og spurningin er: Mun tuskan hanga þar áfram á vaktinni hans Geirs?











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×