Innlent

Ungfrú Ísland valin Sportstúlka Miss World

Alexandra Helga Ívarsdóttir
Alexandra Helga Ívarsdóttir MYND/UNGFRUISLAND.IS

Ungfrú Ísland, Alexandra Helga Ívarsdóttir, sem nú tekur þátt í keppninni Miss World í Suður-Afríku var kjörin sportstúlka keppninnar á föstudag. Það var enginn annar en ruðningskappinn Marc Batchelor sem afhenti henni verðlaunin. Úrslitakvöldið fer fram laugardaginn 13.desember.

„Ég trúi því ekki að ég hafi unnið titilin Sportstúlka keppninnar. Ég er svo spennt fyrir úrslitakvöldinu. Ég skemmti mér mjög vel í dag og það var frábært að vinna með liðinu mínu við að smíða bátinn. Við fylgdum reglunum og vorum einbeitt í því að hafa bátinn þéttann, svo hann gæti siglt," er haft eftir Alexöndru á vef keppninnar.

Allar 112 stúlkurnar sem taka þátt í keppninni eyddu deginum í íþróttaþrautum. Þeim var skipt upp í fjóra hópa sem áttu að leysa allskyns þrautir.

Úrslitakvöldið fer fram í Jóhannesarborg laugardaginn 13.desember þar sem Miss World verður krýnd. Skemmst er að minnast þess þegar Unnur Birna Vilhjálmsdóttir sigraði keppnina árið 2006 og varð þar með þriðja íslenska stúlkan til þess að ná því takmarki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×