Viðskipti innlent

Jólalán Hagkaupa vinsæl

Um tvö hundruð og þrjátíu manns hafa fengið jólalán hjá Hagkaupum til fjármagna innkaupin fyrir jólin.

Það er barist um viðskiptavini fyrir þessi jólin eins og endranær og líklega enn frekar nú en mörg undanfarin ár. Framlag Hagkaupa til baráttunnar er að bjóða viðskiptavinum vaxtalaus jólalán þegar þeir versla í Hagkaupum. Kostnaðurinn við lántökuna er þriggja prósenta lántökugjald og hægt er að dreifa greiðslum af láninu í allt að sex mánuði.

Til að geta nýtt sér jólalánið þurfa menn að vera með kreditkort frá Mastercard eða Vísa og næga úttektarheimild. Ekki þarf að semja um lánið fyrirfram heldur getur fólk valið í körfuna og samið síðan um lánið á sérmerktum kössum. Hvorki er hámark né lágmark á jólaláninu en að sögn Guðrúnar Evu Gunnarsdóttur fjármálastjóra Hagkaupa eru flestir að taka um 50 þúsund króna lán. Á föstudagskvöld höfðu um 230 tekið jólalán Hagkaupa. Samkvæmt dæmi af heimasíðu Hagkaupa er kostnaðurinn af 40 þúsund króna jólaláni, sem dreift er á þrjár greiðslur, um 1190 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×