Handbolti

FH-ingar sáttir við sinn hlut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson er á leið frá FH til Kiel.
Aron Pálmarsson er á leið frá FH til Kiel. Mynd/E. Stefán
Þorgeir Arnar Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, segir að félagið sé búið að komast að samkomulagi við Kiel um söluna á Aroni Pálmarssyni til þýsku meistaranna.

„Það er ekki búið að skrifa undir en það er engin hætta á að það fari að stoppa þetta," sagði Þorgeir í samtali við Vísi. Aron skrifaði í morgun undir fjögurra ára samning við Kiel og nú á aðeins eftir að ganga frá formsatriðum á milli félaganna.

„Við erum búin að ná saman í öllum meginatriðum og var aldrei nein hætta á því að það myndi ekki gerast. Það var vilji allra að láta þetta ganga upp."

Þorgeir segir að FH sé sátt við sinn hlut en vill þó ekki gefa upp kaupverðið. „Við lögðum fram mjög sanngjarnar kröfur sem Kiel mætti. Fjárhagslega er þetta gott fyrir FH en fyrst og fremst er það sterkt fyrir FH að tengjast félagi eins og Kiel - stærsta félagsliði heims."

Þorgeir segir að það séu atriði í samningnum sem kveði á um samstarf FH og Kiel í framtíðinni. „Samkvæmt samningnum hefur FH aðgengi að Kiel og öfugt. FH verður þar með gluggi Kiel inn í íslenskan handbolta. Ég er viss um að þessi hluti samningsins eigi eftir að skipta meira máli upp á framtíðina að gera en peningurinn sem við fáum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×