Innlent

Rúmlega 600 milljónir í vexti vegna Impregilomáls

Breki Logason skrifar
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra. MYND/PJETUR

Eins og Vísir sagði frá fyrr í dag felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm í máli Impregilo gegn íslenska ríkinu í morgun. Verktakafryrirtækið höfðaði mál á hendur ríkinu vegna vangoldinnar greiðslu á opinberum gjöldum. Lögmaður Impregilo segist ánægður með niðurstöðuna enda hafi verið fallist á allar kröfur stefnanda. Ríkið var dæmt til þess að greiða þær rúmu 1.230 milljónir sem Impregilo fór fram á. Auk þess þarf ríkið að greiða dráttarvexti á bilinu 600-700 milljónir króna.

„Ég bjóst nú frekar við þessari niðurstöðu þar sem Hæstiréttur hafði dæmt um ábyrgðina árið 2007, þetta snérist því aðallega um kröfufjárhæðina," segir Garðar Valdimarsson lögmaður Impregilo.

Garðar segist ekki vera alveg með á hreinu upp á hvað krafan hjóðar með dráttarvöxtum. „Um miðjan mánuðinn var þetta á milli átján og nítján hundruð milljónir með öllu."

Garðar segir í raun skrýtið að íslenska ríkið hafi hangið svo lengi á því að greiða upphæðina og þannig safnað dráttarvöxtum upp á rúmlega 600 milljónir króna.

„Miðað við það að Hæstiréttur hafði í raun talað í þessu máli þá finnst manni það skrýtið. Dómurinn í Hæstarétti var kveðinn upp í september 2007 og síðan var farið fram á að ríkisskattstjóri myndi reikna þetta. Í framhaldi af því tók síðan fjármálaráðuneytið málið yfir," segir Garðar.

Hann segir að fyrsta innheimtubréfið hafi verið sent 25.október árið 2007 en Héraðsdómur fellst á að dráttarvextir séu reiknaðir frá þeim tíma. „Það er í raun viðurkenning á því að þeir hefðu átt að borga þetta þá, í framhaldi af dómi Hæstaréttar."

Vísir hefur reynt að fá viðbrögð frá fjármálaráðuneytinu í dag án árangurs. Böðvar Jónsson aðstoðarmaður fjármálaráðherra sagði hinsvegar í samtali við Vísi að í ljósi þess að dómurinn hafi fallið í morgun væri ekki hægt að tjá sig um hann strax.

„Þetta er hlutur sem þarf að skoða og við munum gera það," sagði Böðvar við Vísi.




Tengdar fréttir

Ríkið greiði Impregilo rúman milljarð

Impregilo á Íslandi stefndi íslenska ríkinu vegna endurgreiðslu á opinberum gjöldum. Dómur féll í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Niðurstaðan er sú að íslenska ríkið þarf að greiða fyrirtækinu um 1.230.000.000 íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×