Innlent

Samfylkingin getur ekki stutt ESB-umsókn

Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir að flokkurinn hafi ekki lokið undirbúningi í samræmi við lýðræðislegar samþykktir og geti því ekki skrifað undir umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Samningsmarkmið skilgreind

Stefán segir í Morgunblaðsgrein í dag að stefna Samfylkingarinnar í Evrópumálum felist í póstkosningu sem fór fram á vegum flokksins árið 2002 og landsfundarsamþykktum eftir það sem segja meðal annars að samningsmarkmið skuli skilgreind áður en til umsóknar kemur.

,,Því verki hefur ekki verið sinnt í hálfan áratug. Öfugt við það sem ýmsir forystumenn halda fram er Samfylkingin því ekki í stakk búin til að styðja umsókn um aðild að ESB ef hún ætlar að virða sínar eigin lýðræðislegu samþykktir," segir Stefán.

Ekkert gert í hálfan áratug

Stefán segir að í hálfan áratug hafi verið látið hjá líða að skilgreina samningsmarkmiðin. Það eina sem þjóðin viti er að sumir forystumenn Samfylkingarinnar þrái það heitast að koma landinu inn í Evrópusambandið.

Það er auðvelt á tyllidögum að hvetja til opinnar, lýðræðislegrar og ígrundaðar samræðu, að mati Stefáns. ,,En ætti það ekki að vera lágmarkskrafa í svo stóru máli að það sé undirbúið vandlega í samræmi við lýðræðislegar samþykktir?" spyr Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×