Innlent

Tæknifólk Stöðvar 2 varð fyrir árásum

Frá mótmælunum.
Frá mótmælunum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson stjórnandi Kryddsíldarinnar segir að tæknifólk Stöðvar 2 hafi orðið fyrir árásum á meðan þátturinn var sendur út fyrr í dag. Þetta er átjánda Kryddsíldin sem er haldinn. Sigmundur segir að mótmælendur hafi með framferði sínu klippt á lýðræðislega umræðu í landinu. Lögreglumaður var fluttur á sjúkrahús eftir að hann fékk stein í höfuðið.

Það sauð uppúr hjá mótmælendum fyrir utan Hótel Borg þar sem fram fór bein útsending af Kryddsíldinni svokölluðu. Útsendingu var hætt vegna skemmda á útsendingarbúnaði.

„Við áttum von á öllu en ekki endilega því að mótmælendur myndu skemma fyrir okkar tækjabúnað. Leiðinlegast fannst mér að tæknifólk hefði orðið fyrir árásum, barðir og teknir hálstaki," segir Sigmundur sem tekið hefur þátt í flest öllum þáttum Kryddsíldarinnar.

Hann segir kapla hafa verið slitna, brennda og sprengda í tætlur. „Það var brotist inn og rifið niður hurðir þannig að útsendingu var hætt."

„Á meðan stóðu ýmsir menn fyrir utan og það hlakkaði í þeim. Þar á meðal einn þekktur spjallstjórnandi hjá Ríkisútvarpinu," segir Sigmundur.

Hann segir forystumenn stjórnmálaflokkanna hafa haldið ró sinni allan tímann en Geir H. Haarde komst aldrei í Kryddsíldina. „Hann komst ekki inn í húsið en hinir voru ótrúlega rólegir þrátt fyrir að við heyrðum sprengingar, barsmíðar og bjölluhljóm fyrir utan. Mótmælendur náðu sínu fram, þeir klipptu á lýðræðislega umræðu í landinu."

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið að um 250 manns hafi verið á svæðinu en allir eru farnir þar núna. Lögregla vonast til þess að geta yfirgefið svæðið fljótlega. Einhverjir voru handteknir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×