Erlent

Dauðsfall ekki rakið til rafbyssu

Óli Tynes skrifar

Myndir af því þegar Pólverjinn Róbert Dziekanski gekk berserksgang með ópum og óhljóðum á flugvellinum í Vancouver í október á síðasta ári vöktu óhug um allan heim.

Hann var borinn burt látinn eftir átök við öryggisverði sem meðal annars beittu rafstuðbyssu til þess að yfirbuga hann. Andstæðingar þeirra tækja röktu dauða hans beint til þeirrar beitingar.

Þrír réttarmeinafræðingar komu að gerð skýrslu um krufningu á Dziekanski. Niðurstaða þeirra var að ekki sé hægt að rekja dauða hans beint til tækisins.

Dziekanski var veill fyrir hjarta vegna ofdrykkju. Hann hafði verið undir gríðarlegu andlegu álagi meðal annars sökum flughræðslu.

Hann hringdi meðal annars í móður sína í Kanada og sagði henni að hann myndi ekki fljúga. Vegna hegðurnar hans þurfti að seinka flugi vélarinnar sem hann kom með frá Póllandi.

Á flugvellinum í Vancouver missti hann svo algerlega stjórn á sér og grýtti meðal annars stól til að reyna að komast í gegnum glervegg.

veir aðrir sérfræðingar sem komu að málinu sögðu að framkoma Dziekanskis hafi borið merki um það sem á læknamáli kallast æðiskast fyrir dauða.

Niðurstaðan varð því í stuttu máli sú að margir samverkandi þættir hefðu valdið dauða hans. Ekki var talin ástæða til aðgerða gegn öryggisvörðunum sem yfirbuguðu hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×