Cristiano Ronaldo hafði aðeins átt Ferrari bílinn sinn í tvo daga þegar hann klessukeyrði hann á vegg í Manchester í gær. Hann er nú aftur kominn á Bentley, en hætt er við því að tryggingar kappans hækki hressilega í framtíðinni.
Ekki var nóg með að 38 milljón króna sportbíll Ronaldo sé ónýtur, heldur er haft eftir talsmanni félags breskra bifreiðaeigenda í Guardian í dag að ökutækjatrygging Portúgalans muni nú hækka gríðarlega.
"Það kemur ekkert tryggingafélag nálægt svona tryggingu. Menn þyrftu að vera minnst 25 ára gamlir til að fá viðráðanlega tryggingu á svona bíl, en hún myndi ekki fást á innan við átta milljónir. Ef hinsvegar viðkomandi hefur lent í óhappi eins og í þessu tilviki, færi gjaldið upp undir 20 milljónir."
Talsmaðurinn bætti við að tryggingafélög væru treg til að taka að sér að tryggja ökutæki atvinnumanna í knattspyrnu - óháð bílategund - því þeir flokkuðust sem sérstakur áhættuhópur.
"Það er ekki bara hátt verð bílsins sem um ræðir, heldur er ómögulegt að gera sér í hugarlund hversu háar fjárhæðir tryggingafyrirtækið þyrfti að borga ef leikmaðurinn myndi ef til vill lenda í óhappi með tvo félaga sína með sér í bílnum og gæti ekki spilað aftur. Þá kæmu mögulega kröfur um launagreiðslur og auglýsingasamninga inn í dæmið."