Viðskipti innlent

Fjármálaeftirlitið birti skýrslur um bankana

Viðskipta- og forsætisráðuneyti hafa farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það birti helstu niðurstöður úr skýrslum endurskoðunarfyrirtækja um starfsemi bankanna fyrir hrunið. Í skýrslunum eru allar aðgerðir bankanna mánuðinn áður en þeir voru þjóðnýttir.

Endurskoðunarfyrirtækin sem rannsökuðu starfsemi föllnu bankanna skiluðu skýrslum um málið til Fjármálaeftirlitsins fyrir áramót. Þrjú fyrirtæki voru ráðin til að skoða bankanna þrjá: Price Waterhouse Coopers rannsakaði Kaupþing, Deloitte Landsbankann og Ernst & Young Glitni. Rannsóknin á Glitni var upphaflega í höndum KPMG sem sagði sig frá verkinu í desember. Rannsóknin snéri að því hvort brotið hafi verið gegn innri reglum bankanna og lögum og reglum um fjármálafyrirtæki.

Fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um umræddar skýrslur án árangurs.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa viðskipta- og forsætisráðuneytið nú farið þess á leit að Fjármálaeftirlitið birti helstu niðurstöður úr þessum skýrslum og hvernig unnið verði úr rannsókn í framhaldinu. Búast má við að Fjármálaeftirlitið bregðist við þessari bón á næstu dögum. Heimildir fréttastofu herma að í skýrslunum sé ýmislegt sem orki tvímælis en Fjármálaeftirlitið mun meta hvort tilefni sé til nánari rannsóknar eða beitingu úrræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×