Viðskipti innlent

Útlán til atvinnuveganna námu 5.500 milljörðum kr.

Útlán lánakerfisins til atvinnuveganna námu 5.518 milljörðum kr. í lok september síðastliðnum eða rétt fyrir hrun bankanna. Þetta er um fjórföld áætluð landsframleiðsla síðasta árs.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að skuldir fyrirtækjanna höfðu þá aukist um 44% frá upphafi árs og mun meira en skuldir heimilanna en þær skuldir jukust um 22% á sama tíma.

Hröð skuldaaukning atvinnuveganna er ekkert ný á nálinni en í upphafi síðasta árs höfðu skuldir þeirra þrefaldast á fjórum árum. Þessi þróun tengdist skuldsettum kaupum hlutafjár í erlendum fyrirtækjum og beinum yfirtökum erlendra fyrirtækja.

Að baki þeim kaupum stóðu oft á tíðum eignarhaldsfélög en um 39% af útlánum bankakerfisins til fyrirtækja í lok september voru til eignarhaldsfélaga. Skuldir eignarhaldsfélaga höfðu þá aukist um 71% á árinu. Af útlánum lánakerfisins til innlendra aðila í lok september voru 72% til atvinnuveganna og 25% til heimilanna. Kemur þetta fram í hagtölum Seðlabankans.

Meirihluti skulda fyrirtækja fyrir hrunið voru gengisbundnar og hafði vægi þeirra þá verið að aukast. Af skuldum fyrirtækja við innlánsstofnanir í lok september síðastliðnum voru gengisbundnar skuldir tæplega 68% samanborið við 59% í upphafi árs 2008.

Hátt hlutfall erlendra skulda skýrist af erlendri fjárfestingu sem var fjármögnuð með erlendum lánum á undanförnum árum. Einnig setti óhagstæð gengisþróun krónunnar sitt strik í reikninginn á síðastliðnu ári en gengisvísitala krónunnar og þar með meðalverð gjaldmiðla helstu viðskiptalandanna hækkaði um 59% á fyrstu níu mánuðum ársins.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×