Innlent

Strætó fækkar ferðum

Strætó bs. mun fækka ferðum frá 1. febrúar vegna erfiðari rekstraraðstæðna í kjölfar bankahrunsins. Helstu breytingarnar eru að allar helstu leiðir, að leiðum 1 og 6 undanskildum, munu aka á hálftíma fresti utan annatíma virka daga og leiðir 21, 22, 33, 34, 35 og 36 á klukkutíma fresti. Jafnframt munu leiðir 2, 4, 5, 11, 12, 13, 14, 15, 18, 19, 24 og 28 aka á klukkutíma fresti á kvöldin og um helgar. Þjónustutími Strætó mun ekki styttast að öðru leyti en því að akstur mun hefjast tveimur tímum síðar en verið hefur á öllum leiðum á sunnudögum og helgidögum. Vagnar munu áfram aka fram undir miðnætti.

Að auki verða sértækar breytingar á nokkrum leiðum. Leið 4 ekur einungis milli Hamraborgar og Breiðholts utan dagtíma, leið 17 mun einungis aka á dagtíma á virkum dögum og milli kl. 12:00 og 19:00 á laugardögum, leið 23 (Álftanes) mun eingöngu aka á annatímum og leiðir 31 og 32 munu eingöngu aka á klukkutíma fresti.

„Það er að sjálfsögðu ekki óskastaða að þurfa að draga úr þjónustu nú þegar notkun fólks á strætó hefur aukist jafnt og þétt síðustu misserin. Við teljum engu að síður, í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við stóðum frammi fyrir í rekstri Strætó, að við höfum valið besta kostinn sem í boði var. Langstærsti hluti farþega okkar tekur strætó á morgnana og síðdegis og því leggjum við allt kapp á að halda þjónustustigi eins háu á þessum tímum og mögulegt er og þannig tryggja að sem fæstir verði fyrir óþægindum vegna þessara breytinga," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

Í tilkynningu frá Strætó segir að breytingarnar séu gerðar með hliðsjón af ítarlegum rannsóknum Strætó bs. á farþegafjölda og nýtingu strætóleiða. Mest sé dregið úr þjónustu á þeim tímum þegar farþegar eru fáir, en minna þegar nýting er meiri. Á leiðum 1 og 6, sem flytji flesta farþega dag hvern, verði til að mynda engar breytingar að því undanskildu að akstur hefjist tveimur tímum síðar en áður á sunnudagsmorgnum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×