Innlent

Samkomulag um minnihlutastjórn

Samkvæmt samkomulaginu verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra.
Samkvæmt samkomulaginu verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra.

Náðst hefur samkomulag um að mynda minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn munu verja vantrausti.

Samkvæmt heimildum fréttastofu felst í samkomulaginu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Embætti forseta Alþingis fellur svo í skaut Framsóknarflokksins og Guðjón Arnar Kristjánsson verður formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Þegar fréttastofa bar þetta undir Steingrím J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson neituðu þeir báðir. Ekki hefur náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins vegna málsins.

„Ég hef ekki talað við Ingibjörgu Sólrúnu frá því áður en hún fór til Svíþjóðar," sagði Steingrímur í samtali við fréttastofu. Heimildir fréttastofu herma hins vegar að það hafi verið Össur Skarphéðinsson og Lúðvík Bergvinsson sem hafi farið fyrir viðræðum af hálfu Samfylkingarinnar.

Þingflokkar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins funda núna í Alþingishúsinu og búist er við því að málin skýrist að þeim loknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×