Innlent

Segir upplýsingum lekið til þess að koma á sig höggi

Gunnar Páll Pálsson
Gunnar Páll Pálsson

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR segir að upplýsingum hafi vísvitandi verið lekið úr gamla Kaupþingi til að koma á hann höggi. Gunnar Páll hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir störf sín fyrir bankann og átti meðal annars sæti í lánanefnd þegar breska auðkýfingnum Tchenguiz var veitt tugi ef ekki hundruð milljarða króna lán stuttu fyrir bankahrun.

Eins og fram kom í fréttum stöðvar tvö í síðustu viku voru lánin veitt gegn veði í breskum fasteignafélögum í eigu Tjengis. Félögin stóðu illa þegar lánin voru veitt og verðgildi þeirra rýrnað enn frekar síðan þá.Fjármálaeftirlitið rannsakar nú lánveitingarnar en lánin voru veitt á sama tíma og lánsfjármarkaðir voru almennt að lokast.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, sat í lánanefnd bankans á þeim tíma þegar lánin voru samþykkt.

„Þetta eru einn af stærri viðskiptavinum bankans sem var í meðferð hjá bankanum. þannig að ég tel ekki rétt að tjá mig um einstök viðskipti. Það eru veð þarna á bak við en ég vísa því bara á bankann að svara því."

Í Kastljósi í gær fullyrti Kristinn Hrafnsson, fréttamaður að Kaupþing hafi lánað Tchenguiz alls 280 milljarða króna síðasta árið fyrir hrun. Peningarnir hafi verið fluttir í skattaskjól á bresku Jómfrúreyjum.

Þessir peningar, ef upphæðin er sett í samhengi, myndu duga til að greiða eftirstandandi skuld ríkissins vegna Icesave sem og hallarekstur ríkissjóðs á þessu ári.

Gunnar Páll sem nú stendur í miðjum formannsslag segir að andstæðingar sínir séu vísvitandi að reyna gera störf hans fyrir gamla Kaupþing tortryggileg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×