Innlent

Atvinnuleysistryggingasjóður gæti tæmst fyrir árslok

Búist er við að 14 þúsund manns verði komnir í hóp atvinnulausra eftir helgi og fjöldinn verði um tuttugu þúsund í vor. Atvinnuleysistryggingasjóður mun að óbreyttu tæmast fyrir árslok.

Hjá Vinnumálastofnun undirbúa menn sig undir miklar annir í næstu viku þegar stór hópur fólk sem sagt var upp í fjöldauppsögnum í lok október missir vinnuna.

Fjöldi atvinnulausra hefur vaxið hratt undanfarið en á bilinu 150 til 200 manns hafa undanfarið skráð sig á atvinnuleysisskrá á hverjum degi. Áætlanir Vinnumálastofnunar gera ráð fyrir að um fjórtán þúsund manns verði atvinnulausir í kringum mánaðarmótin. Sú tala á eftir að hækka ef spár standast og allt upp í tuttugu þúsund manns verða án atvinnu næsta vor.

Nokkuð hefur safnast í Atvinnuleysistryggingarsjóð síðustu árin en atvinnuleysisbætur eru greiddar úr honum. Hratt hefur hins vegar gengið á hann eftir að atvinnuleysi fór að aukast.

Búist er við því að sjóðurinn hafi úr um tuttugu milljörðum að spila á þessu ári. Í fjárlögum ársins er gert ráð fyrir að um átján milljarðar verði greiddir úr sjóðnum. Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar segir þá tölu hins vegar geta hækkað og ljóst sé að sjóðurinn geti hæglega tæmst á árinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×