Innlent

Kallaður þjófur á þingi Evrópuráðsins

Breki Logason skrifar
Ellert B. Schram
Ellert B. Schram

Ellert B. Schram þingmaður Samfylkingar var staddur á þingi Evrópuráðsins í Strassbourg í vikunni. Þegar verið var að ræða stöðuna í fjármálaheiminum kvaddi hann sér hljóðs og talaði um beitingu breta á hryðjuverkalögunum. Breskir þingmenn gerðu þá hróp að Ellerti og sökuðu íslendinga um að hafa stolið öllum peningunum af breskum sparifjáreigendum. Ellerti var brugðið.

Ellert er fulltrúi Alþingis í Evrópuráðinu ásamt Guðfinnu Bjarnadóttur þingmanni Sjálfstæðisflokksins og Steingrími J. Sigfússyni. Þau Guðfinna flugu út á sunnudag og sátu umrætt þing.

Hópnum var síðan skipt í flokkagrúppur og fór Ellert í hóp með sósíal demókrötum þar sem rætt var um stöðuna í fjármálaheiminum. Meðal annars tók Robert Wade sem komið hefur hingað til lands þátt í umræðunum. Ísland var í kastljósinu að sögn Ellerts og rætt um ástandið hér sem aðvörun til hinna.

„Í þessari umræðu kvaddi ég mér hljóðs og gerði grein fyrir þeirri stöðu sem við erum í. Þar dró ég ekkert undan og sagði að við bærum að mestu leyti sjálf ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Síðan gerði ég það að umtalsefni hvernig bretarnir veittu okkur náðarhöggið með beitingu hryðjuverkalaganna," segir Ellert en þau ummæli vöktu mikil viðbrögð.

„Þá var hrópað að mér að við hefðum stolið öllum peningunum af bretunum og ætluðum ekki að borga til baka. Það urðu hálfgerð uppsteyt þarna en ég sagðist bara geta sýnt þeim listann. Þetta voru fullttrúar Verkamannaflokksins í Bretlandi en ljóst er að stemmningin var rafmögnuð," segir Ellert sem var nokkuð brugðið við hróp þingmannanna.

„Mér fannst líka á andrúmsloftinu og viðbrögðum fólks að okkur er vorkennt fyrir þá stöðu sem við erum í."

Þó kom eitt og annað út úr þinginu en Ellert og félagar höfðu lagt fram tillögu þar sem velt er fyrir sér hvort þessi beitingi hryðjuverkalaganna stangist á við mannréttindi.

„Það var samþykkt að taka það mál til meðferðar og því var vísað til nefndar sem á að skila skýrslu til þingsins," segir Ellert en þingið hittist fjórum sinnum á ári.

Því má búast við niðurstöðu annaðhvort í apríl eða júní.

„Allavega einhverntíma á þessu ári."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×