Innlent

Össur segir stjórnarsáttmála ekki eiga við Helguvík og Bakka

Ákvæði í stjórnarsáttmála um engin ný álver hefur hvorki áhrif á álver í Helguvík né undirbúning álvers við Húsavík, að sögn iðnaðarráðherra.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, í kafla um aðgerðir í þágu atvinnulífs, segir: "Engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar". En hefur þetta ákvæði einhverja þýðingu í raun?

"Þessi setning þýðir það eitt að það þýðir ekkert fyrir erlend álfyrirtæki að koma og banka uppá hjá iðnaðarráðherranum. Það verða engin ný áform um álver," segir Össur Skarphéðinsson í viðtali við Stöð 2.

Sjálfur er Össur nýbúinn að ganga frá nýjum fjárfestingarsamningi stjórnvalda og Norðuráls vegna álvers í Helguvík. Þar hófst uppsteypa kerskála síðastliðið haust en eftir að heimskreppan skall yfir hefur Norðurál leitað leiða til að halda áfram framkvæmdum.

Össur segir það liggja fyrir að búið sé að taka ákvarðanir varðandi Helguvík og þeim verði ekki breytt.

Þá hefur Alcoa um þriggja ára skeið undirbúið álver á Bakka við Húsavík á grundvelli viljayfirlýsinga sem í gildi eru við ríkisstjórn, sveitarfélög og orkufyrirtæki.

Spurður hvort ríkisstjórnin styðji þau áform segir Össur að ríkisstjórnin styðji ekki ný áform um álver. Áform um Bakka séu hins vegar gömul áform. Það sé í gangi ákveðið samkomulag milli ríkisstjórnarinnar, Norðurþings og Alcoa og það sé í gildi.

Spurður hvort orðin í stefnuyfirlýsingunni, "engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar," eigi hvorki við Helguvík né Bakka svarar Össur: "Já."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×