Innlent

Afsagnir voru forsenda trausts

Davíð Oddsson
Davíð Oddsson
„Ekki er deilt um það í þinginu að þessar afsagnir voru eins og mál voru komin algerlega nauðsynleg forsenda þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik.“

Þetta sagði Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, í umræðum á Alþingi 15. september 1998 um málefni Landsbanka Íslands.

Skömmu áður höfðu allir þrír bankastjórar bankans, Björgvin Vilmundarson, Halldór Guðbjarnason og Sverrir Hermannsson, sagt af sér embættum. Afsagnirnar komu í kjölfar umræðu í samfélaginu um háan risnukostnað bankans, einkum og sér í lagi vegna tíðra og kostnaðarsamra laxveiðiferða. Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var stjórnarandstæðingur í þingflokki jafnaðarmanna, hafði ítrekað spurst fyrir um málið í þinginu.

Að lokum fór svo að þrýst var á bankastjórana að segja af sér.

„Þinginu og þjóðinni er núna mikilvægast að friður og traust fái að ríkja um Landsbankann á ný, jafnt inn á við sem út á við,“ sagði Davíð. „Landsbankinn er ein mikilvægasta fjármálastofnun landsins og orðspor okkar út á við og inn á við krefst þess að skapað sé traust og friður um bankann,“ bætti hann við.

Í samræmi við ráðningarsamninga bankastjóranna nutu þeir réttar til launa í átta mánuði eftir starfslok.

- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×