Innlent

Fæðing á plani: Kom í heiminn á þremur mínútum

Valur Grettisson skrifar

„Þetta er eins og maður sér í bíómynd," lýsir endurskoðandinn Davíð Arnar Einarsson, sem eignaðist litla dóttur á plani bensínstöðvar Orkunnar snemma í morgun. Svo virðist sem bensínstöðin sé barnvæn í meira lagi því dóttir Davíðs er annað stúlkubarnið sem fæðist á plani stöðvarinnar á hálfu ári.

Fjölskyldu Davíðs heilsast vel en föðurnum var óneitanlega brugðið eftir að hafa tekið sjálfur á móti dóttur sinni.

Það var rétt fyrir fimm í morgun sem Davíð og kona hans, Áslaug Gunnarsdóttir, lögðu af stað frá heimili sínu í Grafarvoginum og var ferðinni heitið niður á fæðingardeild Landspítalans. Áslaug var þá búinn að vera með samdrætti frá klukkan eitt um nóttina en Davíð segir að atburðarrásin hafi síðan verið hröð. „Þetta snarversnaði á einum klukkutíma og að lokum kom ekkert annað til greina en að stoppa á planinu," segir nýbakaði faðirinn.

Þegar ljóst var að barnið ætlaði ekki að bíða eftir því að komast niður á fæðingardeild þá hringdi Davíð í ljósmóður sem leiðbeindi honum í gegnum fæðinguna.

„Ég snaraði mér aftur í og tók á móti stelpunni," segir Davíð og segir aðspurður að fæðingin hafi ekki tekið meira en þrjár mínútur og bætir við: „Hún gusaðist eiginlega bara út."

Um leið og stúlkan leit dagsins ljós í fyrsta sinn fór Davíð og sótti teppi og flíspeysu sem þau vöfðu stúlkuna inn í. Síðan var brunað niður á spítala þar sem naflastrengurinn var klipptur.

„Okkur heilsast mjög vel, við erum eiginlega bara að hlæja að þessu," segir Davíð en þau voru á Hreiðrinu að safna kröftum þega blaðamaður náði tali af hinum stolta föður. Stúlkan reyndist hraust og myndarleg, tæpar þrettán merkur og um fimmtíu sentimetrar að lengd: „Hún er grönn og löng," segir Davíð stoltur.

Dóttir Davíðs og Áslaugar er annað stúlkubarnið sem fæðist á bensínstöðinni á Miklubraut, en það var í lok júlí síðastliðinn sem par eignaðist litla stúlku á sama stað.

Þegar haft var samband við forsvarsmenn Orkunnar kom í ljós að dóttir Davíðs og Áslaugar gengur undir nafninu Orkuboltinn þar á bæ - enda lá henni talsvert á að komast í heiminn.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×