Viðskipti innlent

Felldu ekki gengið

Kaupþing og Exista reyndu ekki að fella gengi krónunnar á síðasta ári, þrátt fyrir kaup á tvö þúsund milljónum evra á nokkrum mánuðum. Þetta er niðurstaða Fjármálaeftirlitsins, sem kannaði málið að beiðni Seðlabankans.

Seðlabankinn fór þess á leit við Fjármálaeftirlitið í apríl á síðasta ári að það kannaði hvort Kaupþing og stærsti eigandi hans Exista hafi reynt að fella krónuna til að hagnast á lækkun gengisins. Bréfið er undirritað af Davíð Oddssyni og Eiríki Guðnasyni, bankastjórum Seðlabankans.

Fréttastofa hafði heimildir fyrir þessari rannsókn og óskaði eftir gögnum um hana frá Seðlabankanum fyrir nokkrum vikum. Gögnin bárust í dag. Í vinnuskjali sem Seðlabankinn sendi Fjármálaeftirlitinu segir að veiking krónunnar hafi skaðað íslenskt efnahagslíf og að ef aðilar í bankastarfsemi séu vísvitandi að grafa undan gjaldmiðlinum sé allt þjóðfélagið undir í því veðmáli. Slík hegun geti í versta falli leitt til þjóðargjaldþrots.

Skemmst er frá því að segja að Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu í ágúst eftir rannsókn sína að engar vísbendingar séu um að lög hafi verið brotin. Þó kemur fram í bréfi eftirlitsins til Seðlabankans að Kaupþing hafi keypt um 2000 milljónir evra frá nóvember 2007 til mars 2008, á um fjórum mánuðum. Einnig að aðaleigandi Kaupþings, Exista, hafi bókfært 30 milljarða króna hagnað árið 2007.

Engar skýringar hafi verið gefnar fyrir þeim hagnaði.

Fjármálaeftirlitið telur þó að umsvif Kaupþings í evrukaupum miðað við Glitni og Landsbanka séu ekki óeðlileg með tilliti til stærðarmunar bankanna.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×