Viðskipti innlent

Stjórn Baugs dregur til baka beiðni um greiðslustöðvun

Stjórn Baugs hefur dregið til baka beiðni um greiðslustöðvun BG Holding ehf. á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefnd Landsbankans.

Skilanefnd Landsbanka Íslands hf telur það skynsamlega ákvörðun og telur að leiðin sem hún valdi, að óska eftir greiðslustöðvun í Bretlandi, sé best til þess fallin að tryggja hagsmuni kröfuhafa og stuðli að stöðugleika félaganna sem um ræðir.

Greiðslustövun í Bretlandi skapar mesta öryggið fyrir félögin og hámarki þau verðmæti sem í húfi eru. Skilanefnd Landsbankans mun ekki andmæla greiðslustöðvun annarra fyrirtækja Baugs Group á Íslandi, enda liggja hagsmunir bankans fyrst og fremst í eignum BG Holding í Bretlandi.

 

Breskur dómstóll samþykkti í dag beiðni Skilanefndar Landsbanka Íslands hf. um greiðslustöðvun BG Holding ehf. Ráðgjafar frá PricewaterhouseCoopers voru tilnefndir tilsjónarmenn að beiðni Skilanefndar Landsbanka Íslands hf.

Lárus Finnbogason formaður Skilanefndarinnar segir: „Við teljum að skipan tilsjónarmanna með BG Holding ehf. sé besta leiðin til að tryggja stöðugleika og rekstur fyrirtækjanna sem félagið á hluti í. Okkar verkefni er að hámarka verðmæti eignanna til lengri tíma litið og munum styðja framkvæmdastjórnir félaganna dyggilega til að ná því markmiði."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×